Þæfð húfa

Garn: Tove

Eplagrænt nr. 8514: (2) 2 (3) dokkur.
Kremað nr. 1012: Smávegis í snúru og dúsk.
Rústrautt nr. 3937: Smávegis í blóm.
Dökkblátt nr. 5575: Smávegis í blóm.

Stærðir: (2) 4- 6 (8-12) ára.

Prjónar/heklunálar:
Hringprjónn 40 sm og sokkaprjónar nr. 4.
Heklunál nr. 4.

Prjónfesta:
20 lykkjur slétt prjón á prjóna nr. 4 = 10 sm á breidd.


Fitjið upp á lítinn hringprjón nr. 4 (102) 108 (114) lykkjur. Prjónið slétt prjón í hring þar til húfan mælist (18) 20 (22) sm. Takið síðan úr þannig: Prjónið * (15) 16 (17) sléttar, 2 sléttar saman*. Endurtakið frá * til * umferðina á enda = 6 lykkjur teknar úr. Prjónið 2 umferðir án þess að taka úr. Næsta umferð: Prjónið (14) 15 (16) sléttar, 2 sléttar saman umferðina á enda. Prjónið 2 umferðir án þess að taka úr. Næsta umferð: Prjónið (13) 14 (15) sléttar, 2 sléttar saman umferðina á enda. Haldið áfram að taka úr í 2. hverri umferð og það er 1 lykkju minna á milli úrtaka í hvert sinn þar til 24 lykkjur eru eftir. Fellið af. Ekki sauma húfuna saman í toppinn heldur notið snúruna til að taka toppinn saman.
Snúra: Heklið snúru með heklunál nr. 4,5 og tvöföldu kremuðu garni, u.þ.b. 80 sm langa. Búið til lítinn dúsk í hvorn enda. Vefjið snúrunni nokkrum sinnum utan um toppinn á húfunni u.þ.b. (6) 6 (7) frá toppi og bindið fast. Bindið snúruna eftir að búið er að þæfa.
Þæfið húfuna í þvottavél á 40 - 60° C á venjulegu þvottakerfi. Mótið húfuna í rétt form á meðan hún er blaut og látið þorna.
Hekluð og saumuð blóm: Heklið 6 loftlykkjur með heklunál nr. 4,5 og dökkbláu garni. Lokið hringnum með 1 keðjulykkju í fyrstu loftlykkjuna.
1. umferð: Heklið 10 fastapinna í hringinn. Lokið með 1 keðjulykkju í fyrsta fastapinnann.
2. umferð: Skiptið í rústrautt, heklið *9 loftlykkjur, hoppið yfir 1 lykkju, 1 fastapinni í næstu lykkju*. Endurtakið frá * til * umferðina á enda = 5 loftlykkjubogar. Lokið umferðinni með 1 keðjulykkju í fyrsta fastapinnann. Klippið frá. Þræðið nál með rústrauðu og saumið 3 eða 4 spor í hvern boga (festið þráðinn í 1. umferð, stingið nálinni í gegnum 4. loftlykkju í 9-loftlykkjuboganum, stingið síðan í fastapinna í 1. umferð, síðan í 5. loftlykkju í 9-loftlykkjuboganum, haldið
þannig áfram þar til komin eru 3 - 4 spor). Fyllið hvern loftlykkjuboga á þennan hátt = 5 blöð á blóminu. Saumið blómið á húfuna þegar búið er að þæfa hana, það á ekki að þæfa blómið.

Athugið að það mætti fóðra húfuna með einhverju mjúku efni t.d. flóneli.